Fjárfestingar- og uppbyggingarátak ríkisins er talið hafa skapað um þúsund störf, sem jafngildir um 0,5% af fjölda fólks á vinnumarkaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og ef efnahagsráðuneytinu .

Heildarfjárhæð átaksins nam um 17,9 milljörðum króna en markmið þess var að skapa störf og vinna gegn samdrætti í hagkerfinu. Samkvæmt þessum tölum kostar því um 17,9 milljónir króna að búa til hvert starf. Rúmlega þriðjungur fjármagnsins fór í uppbyggingu samgöngumannvirkja, 17% fór í rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar og 14% fór í viðhald og endurbætur fasteigna.

Annað fjárfestngarátak hefst á þessu ári fyrir um 100 milljarða króna sem á að gilda til ársins 2025. Þá hefur ríkissjóður lagt til aukið hlutafé í ríkisfyrirtæki til að flýta framkvæmdum. Sem dæmi má nefna 19 milljarða króna hlutafjáraukningu í Isavia til að fjármagna framkvæmdir við nýja viðbyggingu flugstöðvarinnar í Keflavík .

Opinberar fjárfestingar drógust saman um 9% að raunvirði á síðasta ári en búist er við því að vöxtur í opinberri fjárfestingu í ár verði 18% samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar en 32% samkvæmt Seðlabankanum.