*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 16. maí 2020 14:05

18 milljarða Covid-högg á bankana

Áhrif kórónufaraldursins vógu þungt í uppgjöri stóru bankanna á fyrsta ársfjórðungi, sem allir skiluðu tapi.

Júlíus Þór Halldórsson
Bankastjórar stóru bankanna þriggja, Lilja Björk Einarsdóttir hjá Landsbankanum, Birna Einarsdóttir hjá Íslandsbanka og Benedikt Gíslason hjá Arion banka.

Uppgjör stóru bankanna þriggja fyrir fyrsta ársfjórðung – sem öll voru birt í síðustu viku – lituðust öðru fremur af virðisrýrnun og hreinu fjármunatapi vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Samanlögð virðisrýrnun þeirra nam 11,6 milljörðum króna, og fjármunatapið 6,4 milljörðum, sem saman gerir 18 milljarða króna. Samanlagt endanlegt tap bankanna á fjórðungnum, sem allir töpuðu tíu stafa tölu, nam 7,2 milljörðum króna.

Mesta höggið á stærsta bankann
Sé horft á einstaka banka eru bæði virðisrýrnun og fjármunatap mest hjá Landsbankanum, sem er enda með stærstan efnahagsreikning upp á rúma 1.500 milljarða. Virðisrýrnunin nam 5,2 milljörðum króna og fjármunatapið 2,6 milljörðum.

Bankinn skilaði 3,6 milljarða króna tapi á fjórðungnum samanborið við 6,8 milljarða hagnað á sama fjórðungi árið áður, en séu virðisrýrnunin og fjármunatapið undanskilin – en þau voru samanlagt jákvæð um 2,4 milljarða í fyrra – er afkoma bankans jákvæð um 4,2 milljarða.

Virðisrýrnun Íslandsbanka nam 3,5 milljörðum og fjármunatap 1,7 milljörðum. Tap bankans nam 1,4 milljörðum samanborið við 2,6 milljarða hagnað í fyrra, en séu ofangreindir kostnaðarliðir undanþegnir hefði afkoman verið jákvæð um 3,9 milljarða.

Hjá Arion banka nam virðisrýrnun tímabilsins 2,9 milljörðum og fjármunatap 2 milljörðum. Tapið nam 2,2 milljörðum, en hefði verið 2,7 milljarða hagnaður án fyrrgreindra liða. Að auki er bókfært 889 milljóna króna tap vegna reksturs dótturfyrirtækisins Valitor, sem bankinn flokkar sem aflagða starfsemi.

Kemur sér vel að geta gripið til eiginfjáraukans
Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, segir það óneitanlega koma sér vel í dag að eiginfjárauka seðlabankans á bankana – sem uppi voru háværar raddir um að lækka á síðasta ári þegar halla tók undan fæti í efnahagaslífinu – hafi verið haldið óbreyttum, og bankarnir því haft meira borð fyrir báru en ella.

„Ég var alltaf á því að það ætti að halda þessum eiginfjárauka ríflegum, og núna eru einmitt komnar upp aðstæður sem kemur sér vel að geta gripið til hans í. Það hefði verið mun verra að vera búinn að blása út efnahagsreikninga bankanna með lægri eiginfjárkröfu áður en krísan hófst.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.