Ríkisstjórnin samþykkti í vikunni að verja 1,8 milljörðum króna í brýnar framkvæmdir á vegakerfi landsins. Framlagið bætist við þær framkvæmdir sem áður voru fyrirhugaðar. Í tilkynningu innanríkisráðuneytisins kemur fram að tilgangurinn með framkvæmdunum sé meðal annars að koma til móts við þarfir landsmanna og ferðamanna vegna stóraukinnar umferðar.

500 milljónum króna verður varið til ýmissa viðhaldsverkefna, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu og á hringveginum. 1.300 milljónum verður varið í framkvæmdir við Dettifossveg, Kjósarskarðsveg, Uxahryggjaveg og Kaldadalsveg. Dettifossvegur tengir Kelduhverfi í Öxarfirði við hringveginn nálægt Grímsstöðum á Fjöllum. Hinir vegirnir sem um ræðir tengja Vesturland og Þingvelli. Fjármögnun verkefnanna er háð samþykki Alþingis. Óskað verður eftir fjárheimildum í tillögum til fjáraukalaga