Kröfur í þrotabú félagsins Femin ehf, sem rak samnefnda netverslun, námu 18 milljónum króna. Félagið var úrskurðað gjaldþrota 9. október í fyrra og lauk skiptum 13. janúar síðastliðinn. Fram kemur í Lögbirtingablaðinu að lýstar forgangskröfur fengust greiddar að fullu og fékkst 4,19% upp í almennar kröfur.

Femin var stofnað árið 2000 og rak einhverja vinsælustu vefverslun landsins um nokkurra ára skeið. Í apríl árið 2002 keypti fyrirtækið netmiðilinn visi.is. Samlegðaráhrifin sem stefnt var að gengu hins vegar ekki eftir og seldi Femin visi.is aftur í apríl árið 2003.

Þegar viðskiptin áttu sér stað voru eigendur Femin þær Soffía Steingrímsdóttir og Íris Gunnarsdóttir, sem stofnuðu fyrirtækið. Þær áttu þá tæplega 40% hlut á móti Baugi, Norðurljósum og Íslandsbanka. Soffía seldi hlut sinn í Femin.is árið 2009.