Frá árinu 2018 hafa 18 milljónir króna farið í hótelgistingar og dagpeninga í utanlandsferðum utanríkisráðherra og þeirra sem fóru með málefnasviðs hans. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um ferðakostnað og dagpeninga ráðherra.

Ferðirnar eru samtals 109 frá árinu 2018 og fóru því að meðaltali um 164 þúsund krónur í hótelgistingar og dagpeninga fyrir hverja ferð.

Utanlandsferðir vegna starfa á vegum ráðuneytisins voru samtals 25 frá janúar til og með október á þessu ári.

Árlegar greiðslur dagpeninga vegna ferða ráðherra hafa lítið breyst hlutfallslega frá árinu 2018. 1,9 milljónir króna hafa verið greiddar vegna ferða ráðherra það sem af er ári, eða tæpar 75 þúsund krónur að meðaltali fyrir hverja ferð.

Þá nemur kostnaður vegna hótelgistingar ráðherra 2,25 milljónir það sem af er ári. Kostnaðurinn nam 3,3 milljónum árið 2019 og 3 milljónum 2018.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir tók við sem utanríkisráðherra í nóvember í fyrra. Þar áður hafði Guðlaugur Þór Þórðarson gegnt embættinu frá árinu 2017.