182 umsóknir bárust um 8 nýjar íbúðalóðir á Selbrekkusvæðinu á Egilsstöðum. Lóðirnar eru í efri hluta íbúðasvæðisins í Selbrekku en þetta eru fyrstu lóðirnar sem úthlutað verður þar. Lóðirnar átta eru við göturnar Flatasel og Egilssel, sex einbýlishúsalóðir, ein parhúsalóð og ein raðhúsalóð. Í öllum tilfellum er gert ráð fyrir tveggja hæða húsum.

Lóðunum verður úthlutað í dag og samkvæmt úthlutunarreglum Fljótsdalshéraðs verður dregið úr nöfnum umsækjenda. Í einhverjum tilfellum sækja sömu umsækjendur um fleiri en eina lóð en reglurnar gera ráð fyrir að hver umsækjandi fái eingöngu einni lóð úthutað.

Gatnagerð í efri hluta Selbrekkusvæðisins er nú í fullum gangi. Í skipulagi er gert ráð fyrir 50 til 60 íbúðum á svæðinu og styttist í að fleiri lóðir þar verði auglýstar.

Öllum lóðum í neðri hluta Selbrekkusvæðisins var úthlutað á síðasta ári en mikil ásókn var í þær lóðir og byggist svæðið hratt upp. Í neðri hlutanum er gert fyrir 40 til 50 íbúðum.