Brautskráning kandídata frá Háskólanum í Reykjavík fór fram í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu í gær. Útskriftarnemendur sem luku grunnprófi voru 132 talsins. Flestir luku námi frá tækni- og verkfræðideild eða 66. Næst flestir útskrifuðust úr viðskiptadeild með grunngráðu eða 32 nemendur. Tæplega helmingur allra þeirra kandídata sem útskrifuðust í gær voru brautskráðir frá tækni- og verkfræðideild HR eða 46%.

„51 nemandi lýkur meistara- eða doktorsnámi, segir í tilkynningu frá háskólanum. „17 nemar ljúka meistaranámi frá tækni- og verkfræðideild, 15 frá viðskiptadeild, 10 frá lagadeild og sex nemendur ljúka meistaranámi við tölvunarfræðideild. Þrír doktorsnemar eru brautskráðir. Tveir þeirra útskrifast með doktorspróf í verk- og tæknivísindum og einn með doktorspróf í lögum. Þetta er í fyrsta sinn sem HR útskrifar doktor í lögfræði."

Hreggviður Jónsson, formaður stjórnar Viðskiptaráðs Íslands, afhenti eftirtöldum nemendum viðurkenningar VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur við fjórar akademískar deildir HR; Birki Jóhannssyni, viðskiptadeild, Karen Björnsdóttur, lagadeild, Kristni Hlíðari Grétarssyni, tækni- og verkfræðideild og Þresti Thorarensen, tölvunarfræðideild.

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, flutti ávarp þar sem hann sagði meðal annars: „Samhliða því að leggja áherslu á gæði menntunar, hefur HR tekist að fjölga til muna þeim sem kjósa að sækja háskólamenntun á sviðum tækni, viðskipta, laga og skyldra greina, og þannig lagt sitt af mörkum til að mæta þörfum atvinnulífs og samfélags. Þá höfum við undanfarin ár lagt sérstaka áherslu á að fjölga konum sem sækja sér háskólamenntun á sviði tæknigreina og vex hlutfall þeirra stöðugt.“

Háskólinn í Reykjavík
Háskólinn í Reykjavík

Háskólinn í Reykavík
Háskólinn í Reykavík

Háskólinn í Reykjavík
Háskólinn í Reykjavík