Velta á millibankamarkaði með gjaldeyri nam 187,9 milljörðum króna á árinu 2019 og stóð nánast í stað á milli ára. Í evrum talið nam veltan 1.373 milljónum og dróst saman um tæplega 5% samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands.

Í evrum talið var veltan hins vegar um 60% lægri en árið 2017 og um 74% lægri en árið 2016. Raunar þarf að fara aftur til ársins 2013 til að finna jafn litla veltu í evrum talið á einu ári.

Velta Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði nam 14,4 milljörðum króna á síðasta ári og tæplega þrefaldaðist á milli ára. Frá janúar til júní seldi bankinn gjaldeyri fyrir samtals 11,9 milljarða króna en í júlí og september keypti bankinn gjaldeyri fyrir rúmlega 2,4 milljarða.

Gengi krónunnar gagnvart evru veiktist á árinu um 2%. Það sem af er þessu ári hefur gengi krónunnar gagnvart evru veikt um 1% til viðbótar og var miðgengi við lokun markaða á miðvikudag 136,6 krónur.