Hagnaður Landsbréfa á síðasta ári var 187,2 milljónir króna eftir skatt á síðasta ári samkvæmt ársreikningi. Hagnaðurinn var tæpar sjö milljónir árið á undan. Hreinar rekstrartekjur jukust um 968,9 milljónir króna en voru 438 milljónir króna árið á undan.

Sigurbjörn Jón Gunnarsson greindi frá því í ræðu sinni á ársfundi Landsbréfa á föstudaginn að rekstur Landsbréfa hefði gengið mjög vel á árinu 2013. Umfangið hefði aukist jafnt og þétt og í lok árs hefði félagið annast rekstur 29 sjóða um sameiginlega fjárfestingu og stýringu eigna fyrir fimm lögaðila samkvæmt sérstökum samningum. Eignir í stýringu hefðu aukist um 33% og verið um 110 milljarðar í lok árs. Hagnaður af rekstri var 187 milljónir króna samanborið við 7 milljónir árið áður og eigið fé í árslok 1.633 milljónir króna en var tæpar 686 milljónir.

Í máli Sigurbjörns kom fram að mikil viðurkenning hefði verið í því fólgin þegar Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta valdi Landsbréf til að stýra eignum sjóðsins. Þá hefðu stjórnarhættir félagsins verið teknir sérstaklega út af lögmannstofunni Lex og félagið í framhaldi þeirrar úttektar fengið sérstaka viðurkenningu frá Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands, sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.

Í máli Sigþórs Jónssonar, framkvæmdastjóra kom fram að félagið hefði náð öllum helstu markmiðum sínum á árinu 2013. Hann sagði styrk Landsbréfa m.a. liggja í fjölbreyttu vöruúrvali og félagið kæmi með sjóðum sínum að íslenskum atvinnurekstri á öllum stigum, allt frá frumstigi reksturs fyrirtækja til skráðra félaga.