Fjárhagsætlun Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir að A-hluti borgarinnar verði rekinn með 18,9 milljarða króna halla á árunum 2020-2022, þar af verði 9,7 milljarða halli í ár. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun borgarinnar sem var birt í dag.

Í tilkynningu borgarinnar segir að neikvæða rekstrarniðurstöðu megi rekja til efnahagskreppunnar sem fylgdi Covid-19 og magnaukninga, einkum í velferðarþjónustu, vegna aukinna skuldbindinga af hálfu ríkisins sem lagðar eru á sveitarfélög með lagasetningu og reglugerðum án þess að tekjustofnar séu styrktir.

Sé B-hlutinn tekinn með í reikninginn er áætlað að borgin skili 23,2 milljarða afgangi á sama tímabili. Það skýrist að stórum hluta af 17 milljarða króna áætlaðri matsbreytingu fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum í ár og áætlaðri 32 milljarða afkomu Orkuveitunnar á árunum 2020-2022.

25-30 milljarðar í grunnskóla

Fyrri umræða fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 og fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2022-2026 fer nú fram í borgarstjórn Reykjavíkur.

Eitt af stærstu verkefnum sem fer af stað á nýju ári er bætt fjármögnun grunnskóla með nýju grunnskólalíkani um fjármál og stórátak í viðhaldi leikskóla, grunnskóla og frístundahúsnæðis sem telur 136 byggingar. Alls á að verja á bilinu 25-30 milljörðum til þess á næstu 5-7 árum.

Þá er verið er að innleiða verkefnið Betri borg fyrir börn, samstarfsverkefni skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs, uppbygging búsetuúrræða fyrir fatlaða heldur áfram og mikil áhersla er lögð á þjónustu við viðkvæma hópa í kjölfar Covid.

Aðgerðaráætlun lögð fram til að tryggja betri afkomu

Frá og með árinu 2022 gerir borgarstjórn ráð fyrir batnandi rekstrarniðurstöðu, meðal annars vegna aðgerðaráætlunar til næstu fimm ára sem á að hafa jákvæð áhrif á bæði tekjur og útgjöld borgarinnar. Eftirfarandi aðgerðaráætlun hefur verið lögð fram til að tryggja að markmiðum fjármálastefnu verði náð:

  1. Ná fram 1% hagræðingu á ári á launakostnað í gegnum aðhaldsaðgerðir og stafræna umbreytingu á tímabilinu 2022-2025.
  2. Einungis verði verðbættar samningsbundnar skuldbindingar og hagræðingu náð í rekstri með miðlægum innkaupum og aðhaldsaðgerðum á tímabilinu 2022-2025
  3. Haldið verði áfram með vinnumarkaðsaðgerðir fram eftir árinu 2022 með það að markmiði að skapa störf fyrir einstaklinga sem eru á fjárhagsaðstoð eða atvinnuleysisbótum.
  4. Stuðlað verði að bættri nýtingu húsnæðis með aukinni samnýtingu.
  5. Tryggja óhindrað framboð íbúða og húsnæðis með skipulegri þróun nýrra hverfa sem laðar að íbúa og eflir tekjustofna.
  6. Leitað verði samninga við ríkið um leiðréttingu á framlögum vegna lögbundinna verkefna, einkum vegna þjónustu við fatlað fólk.
  7. Fjármagnsskipan fyrirtækja borgarinnar verði endurskoðuð.
  8. Farið verði í aðgerðir til að bæta skattskil m.a. í samstarfi við ríkið.

„Reykjavík mun vaxa út úr þeim vanda sem Covid skilur eftir sig," segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, í tilkynningu. „Niðurstöður eru í samræmi við Græna planið sem lagt var fram í fyrra og er sýn borgarinnar til skamms og lengri tíma. Grænum fjárfestingum hefur verið flýtt, við bætum sérstaklega við viðhaldsfé í skóla- og frístundahúsæði. Verður 25-30 milljörðum varið til þeirra næstu 5-7 ár. Það dugir til að vinna upp það viðhald sem sparað var á árunum eftir hrun. Grunnskólinn verður einnig betur fjármagnaður á grunni nýs úthlutunarlíkans og velferðarsvið fær fjármuni til að mæta áskorunum og aukinni þjónustu. Borgin er að sækja fram og næsti áratugur verður áratugur Reykjavíkur.“

Eyþór hefur verulegar áhyggjur af skuldasöfnun borgarinnar

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, bendir í yfirlýsingu á að heildarskuldir borgarinnar hafi numið 299 milljörðum króna í upphafi kjörtímabils, sem greiða átti niður samkvæmt sáttmála meirihlutans. Hins vegar séu skuldir borgarinnar nú komnar yfir 400 milljarða og „fara vaxandi“.

„Áætlun gerir ráð fyrir því að skuldir borgarinnar fari vaxandi og verði 453 milljarðar árið 2025. Inn í þeirri tölu er hvorki gert ráð fyrir að greiða skuld Orkuveitunnar við Glitni banka upp á 3 milljarða króna, né endurnýjun hreinsistöðva skólps sem ætla má að verði í kringum 20 milljarða fjárfesting fyrir sveitarfélagið Reykjavík.,“ segir Eyþór.

Hann hefur áhyggjur af kostnaði borgarinnar vegna GAJA gas- og jarðgerðarstöðvarinnar og telur að hann geti orðið um 10 milljarðar. Þá sé ekki gert ráð fyrir rekstrarkostnaði borgarlínunnar í fjármálaáætluninni, sem Eyþór telur að verði um 2 milljarðar á ári. Þar að auki telur hann að viðhaldskostnaður við félagslegt húsnæði eigu borgarinnar sé vanáætlaður um tæplega 5 milljarða.

„Kostnaður við alla þessa þætti getur numið 40 milljörðum króna á tímabilinu. Það þýðir að skuldir í lok tímabilsins gætu farið yfir 500 milljarða sem er þá u.þ.b. 250 milljörðum meira en að var stefnt í upphafi,“ segir Eyþór.