Skráð atvinnuleysi í október 2008 var 1,9% eða að meðaltali 3.106 manns og eykst atvinnuleysi um 40% frá september eða um 877 manns.

Á sama tíma á árinu 2007 var atvinnuleysi 0,8%, eða 1.315 manns.

Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar.

Þar kemur fram að atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu er nú 1,8% af áætluðum mannafla og hefur aukist um 40% frá því í september.

Á landsbyggðinni er atvinnuleysið 1,9% og hefur aukist nánast jafn mikið eða um 38%.

Mest er atvinnuleysið á Suðurnesjum 4,3%, en minnst er atvinnuleysið á Vestfjörðum 0,3%.

Þeir sem verið hafa á skrá lengur en 6 mánuði voru 534 í lok október en 502 í lok september.

Þar af voru 245 atvinnulausir í meira en eitt ár í október. Nýskráningar ríkisborgara frá nýjum ríkjum ESB voru 253 í október en voru 235 í september. Gefin voru út 38 ný atvinnuleyfi í október.

Gert ráð fyrir allt að 3,8% atvinnuleysi í nóvember

Í ár fjölgaði atvinnulausum frá lokum september til loka október um 1.447. Þá hefur atvinnulausum fjölgað um 2.526 frá sama tíma árið 2007.

„Erfitt er að áætla atvinnuleysi um þessar mundir vegna mikils samdráttar í efnahagslífinu og fjöldauppsagna, en líklegt er að atvinnuleysið í nóvember 2008 muni aukast verulega og verða á bilinu 3,3%-3,8%,“ segir á vef Vinnumálastofunar.

Sjá nánar í skýrslu um atvinnuástandið í október. (pdf skjal)