Á síðasta ári fékk 1.471 einstaklingur úrskurðað 75% örorkumat í fyrsta sinn en það er 19% fleiri en árið 2014. Frá aldamótum var mesta aukningin í nýgengi öryrkja árið 2009 þegar 1.528 manns fengu í fyrsta sinn úrskurðað 75% örorkumat. Þetta kemur fram í upplýsingum sem Tryggingastofnun tók saman fyrir Viðskiptablaðið.

Samkvæmt Tryggingastofnun voru alls 17.479 einstaklingar með 75% örorkumat í gildi árið 2015. Alls hefur þeim fjölgað um 28% á síðustu tíu árum en Íslendingum fjölgaði samtals um 12% á sama tíma. Árið 2015 voru 5.124 öryrkja eða 29% með skerta starfsgetu vegna stoðkerfissjúkdóma og 6.628 eða 38% með geðraskanir. Saman telja þessir flokkar 67% af allri örorku í landinu. Algengasta orsök 75% örorkumats hjá einstaklingum undir 30 ára aldri er geðraskanir en fjöldi einstaklinga á því aldursbili með geðraskanir á síðasta ári nam 1.064.

18% undir 30 ára aldri

Ekki er hægt að sjá markverða aukningu á fjölda fólks með 75% örorkumat undir 30 ára aldri á milli ára. Ef litið er hins vegar til nýgengi örorku þá sést að fjölgunin hefur verið þó nokkur á síð­ustu árum. Árið 2015 fengu 261 einstaklingur undir 30 ára aldri í fyrsta sinn úrskurðað 75% örorkumat en það eru svipað margir og árið 2009 en þá mældist mesti fjöldi í nýgengi öryrkja undir 30 ára aldri frá aldamótum. 30 ára og yngri voru 18% allra nýskráðra öryrkja á síðasta ári en það hlutfall hefur staðið í stað frá árinu 2013.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .