Hinn 1. janúar 2008 voru landsmenn 313.376 og fjölgaði þeim því um 1,9% á árinu 2007. Fólksfjölgun var þó minni en árin tvö þar á undan en árið 2006 var hún 2,6%, sem er með því mesta sem mælst hefur. Fólksfjölgun undanfarinna ára má öðru fremur rekja til fólksflutninga til landsins. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Ef fólksfjöldaþróun á einstökum landsvæðum er skoðuð kemur í ljós að íbúum fjölgar mest í þéttbýli í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Þannig er fólksfjölgun mikil á Suðurnesjum og í þéttbýlisstöðum á Suður- og Vesturlandi. Á Austurlandi fækkaði íbúum árið 2007 eftir mikla fólksfjölgun árin þar á undan.

Ung þjóð

Íslenska þjóðin er fremur ung ef miðað er við nágrannalöndin. Hlutfall aldraðra er lægra hér á landi en í mörgum Evrópuríkjum en hlutfall barna að sama skapi hærra.

„Athyglisvert er að hlutfall fólks á vinnufærum aldri hefur aldrei verið hærra en nú. Það má að einhverju leyti rekja til þess að flestir erlendir ríkisborgarar sem búsettir eru hér á landi eru á þrítugs- og fertugsaldri. Fá börn og hverfandi fáir aldraðir einstaklingar eru hins vegar með erlent ríkisfang,“ segir á vef Hagstofu.