Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,5% í febrúar. Fjölbýli hækkaði um 0,7% í mánuðinum en sérbýli lækkaði hins vegar um 0,3 prósent. Þetta má sjá úr tölum frá Þjóðskrá.

Þar segir enn fremur að áfram hægi á tólf mánaða hækkunartakti íbúðaverðs á höfuð borgarsvæðinu. Undanfarna tólf mánuði hefur íbúðaverð hækkað um 10,6%, sem er minni árshækkun en mælst hefur síðan í maí 2016. Einnig hægir á árshækkunum raunverðs íbúða.

Vísitala íbúðaverðs hefur nú hækkað um 8,2% umfram vísitölu neysluverðs undanfarna tólf mánuði. Í Hagsjá Landsbankans segir einnig að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hafi nú í febrúar hækkað um 1,9% á síðustu sex mánuðum, en hækkaði um 8,5% næstu sex mánuði þar á undan.

Verðhækkanir voru litlar seinni hluta 2017 og væntingar hafa staðið til þess að meiri ró verði á þessum markaði á næstu misserum.