Fimmti hver einstaklingur hefur þurft á sérstökum úrræðum að halda til að geta staðið skil á greiðslum vegna lána.  Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir ASÍ í júní.  Athygli vekur að ekki virðist skipta miklu hvaða tekjur menn hafa, þannig hefur jafn stórt hlutfall af tekjulægsta og tekjuhæsta hópnum þurft á úrræðum að halda til að geta staðið í skilum.

Af þeim sem telja sig í vandræðum með að standa í skilum hafa 70% sótt um eða nýtt sér þau úrræði sem er í boði en 30% hafa ekki gert það.  Greinileg fylgni er milli hækkandi menntunarstigs og þess að fólk leiti þeirra úrræða sem eru í boði. Þannig hafa 83% þeirra sem er með háskólapróf og telja sig þurfa sérstök úrræði leitað eftir þeim en aðeins 32% þeirra sem bara eru með grunnskólapróf.  Það er hins vegar umhugsunarefni að aðeins 37% þeirra sem hafa nýtt sér þau úrræði við greiðsluvanda sem eru í boði, telja sig hafa fengið fullnægjandi úrlausn mála.  63% segja úrræðin ekki hafa dugað.

Capacent Gallup gerði könnunina fyrir ASÍ í 26. maí og 16. júní 2009.  Um net- og símakönnun var að ræða.  Úrtakið var 1248 manns á landinu öllu, 18-75 ára.