Nítján manns í höfuðstöðvum og verslunum N1 hefur verið sagt upp í tengslum við skipulagsbreytingar og uppstokkun á rekstri fyrirtækisins.

Fram kemur í tilkynningu frá N1 að stjórn fyrirtækisins hafi ákveðið að nokkrar sérverslanir með varahluti og rekstrarvörur verði færðar í dótturfélag sem verði frá næstu áramótum rekið sér sjálfstæð eining undir merkjum Bílanausts. Starfsfólk N1 sem unnið hefur í verslunum mun framvegis vinna hjá Bílanausti. Fleiri verslanir N1 í Kópavogi, Hafnarfirði, Keflavík Akureyri, Egilsstöðum og á Selfossi munu sömuleiðis taka upp merki Bilanausts. Framkvæmdastjóri Bílanausts verður Árni Stefánsson, sem hefur veitt vöru- og rekstrarsviði N1 forstöðu. Hjá Bílanausti vinna 60 manns.

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, segir í tilkynningu frá félaginu ástæðuna fyrir breytingunni þá að afkoma þess hluta sem fari undir Bílanaust ekki hafa verið viðunandi. með því að skipta honum út í sérstakt félag og hagræða um leið í rekstrinum verði hann styrktur til framtíðar. „Auðvitað er alltaf erfitt að þurfa að segja upp starfsfólki, en með þessum aðgerðum teljum við að hægt sé að snúa rekstri Bílanausts til betri vegar,“ segir hann.

Einfaldara skipulag

Þá segir í tilkynningunni að skipulag N1 verður einfaldað og verði að tveimur meginsviðum.

Einstaklingssvið annast og rekur þjónustustöðvar N1 um land allt ásamt bílaþjónustu, þ.á.m. smurstöðvum og dekkjaþjónustu en fyrirtækjasvið annast viðskipti við stórnotendur og fyrirtæki, beint frá höfuðstöðvum félagsins og í verslunum N1 í Reykjavík, Grindavík, Akranesi, Ólafsvík, Akureyri, Reyðarfirði, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjum.

Stefnt er að skráningu N1 hf. í Kauphöll Íslands á næsta ári og munu Arion banki og  Íslandsbanki annast skráninguna.

Eftir þessar breytingar starfa um sjö hundruð starfsmenn hjá N1 um land allt. Félagið rekur  hátt í eitt hundrað sjálfsafgreiðslu- og þjónustustöðvar víðsvegar um land, ellefu verkstæði og átta verslanir fyrir stórnotendur í öllum landshlutum.