Ítalska ríkið hefur samþykkt að veita tveimur bönkum á Veneto héraðinu fjárveitingu upp á 19 milljarða evra. Björgunaraðgerðin felur það í sér að tveir bankar, Banca Popolare di Vicenza og Veneto Banca verða leystir upp og eignum þeirra skipt upp í „góðar” eignir og „slæmar” eignir. Munu góðu eignir bankanna verða seldar til Intesa Sanpaolo bankans. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg .

Neyðarfundur í ríkisstjórn Ítalíu fór fram í Róm í dag. Pier Carlo Paodan, fjármálaráðherra landsins greindi frá því að fyrsta skrefið verði að veita Intesa Sanpaolo 5 milljarða evra fjárveitingu til að kaupa hluta af eignum bankanna tveggja. Hinir 12 milljarðarnir eru til staðar vegna mögulegrar áhættu sem skapast af því að leysa bankanna upp. Í framhaldinu greindi forsætisráðherra Ítalíu, Paolo Gentiloni frá því að bankarnir myndu báðir opna á mánudaginn.

Evrópski seðlabankinn tilkynnti síðastliðinn föstudag frá því að bankarnir báðir væru líklega eða á leið í greiðsluþrot. Gera þurfti breytingar á ítölsku regluverki til að hægt væri að leysa bankana upp og er það ástæða þess að boðað var til neyðarfundar í Róm í dag.