Icelandic  Water  Holdings  hf. tapaði 18,1 milljónum dollara, sem samsvarar um 1,9 milljörðum króna árið 2016 og jókst tapið um 650 milljónir króna milli ára. Uppsafnað tap áranna 2011 til 2016 nemur 68,5 milljónum dollara eða 7,3 milljörðum króna miðað við núverandi gengi krónunnar. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins fyrir árið 2016. Félagið selur vatn undir vörumerkinu Icelandic Glacial og rekur átöppunarverksmiðju í Þorlákshöfn.

Salan aukist en kostnaður einnig

Rekstrartekjur félagsins, sem koma nær allar til af sölu erlendis, námu 1,6 milljörðum króna sem er aukning um 22% milli ára. Frá árinu 2013 nemur  vöxtur rekstrartekna 69%. Rekstrarkostnaður jókst hins vegar til jafns við auknar tekjur árið 2016 og nam 2,4 milljörðum króna.  Rekstrartap félagsins fyrir  fjármagnsliði var nær óbreytt milli ára og nam 770 milljónum króna.

Þá voru fjármagnsgjöld ríflega 1,1 milljarður króna, hærri en fjármagnstekjur sem er hækkun um ríflega 700 milljónir króna milli ára. Eignir félagsins námu 133 milljónum dollara, um 14,1 milljarði króna í árslok 2016 og lækkuðu um milljón dollara milli ára. Stærsta eign  Icelandic Water Holdings er vatnsból sem það metur á tæpar 100 milljónir dollara, ríflega 10 milljarða króna. Þá voru dreifingarsamningar félagsins metnir á, 21,8 milljónir dollara, um 2,3 milljarða króna. Skuldir námu 77,3 milljónum dollara og hækkuðu um 17 milljónir dollara milli ára. Stór hluti skulda félagsins er tilkominn vegna lána frá hluthöfum félagsins. Af 35 milljóna dollara skammtímaskuldum nema lán frá tengdum aðilum 15,5 milljónum dollara. Þá eru 17,6 milljónir dollara af samtals 42 milljóna dollara langtímaskuldum tilkomnar vegna skuldabréfa sem breytanleg eru í hlutafé og koma að mestu frá hluthöfum félagsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .