Heildarviðskipti með hlutabréf námu 18.799 milljónum í mars eða 817 milljónum á dag.  Þessu til samanburðar var veltan með hlutabréf í febrúar 5.540 milljónir eða 277 milljónir á dag. Mest voru viðskipti með bréf Marels 13.560 milljónir, bréf Össurar 3.536 milljónir og bréf Icelandair 1.207 milljónir.  Úrvalsvísitalan (OMXI6) lækkaði lítillega á milli mánaða (0,6%) og stendur í tæpum 1.000 stigum, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll.

Ástæðan fyrir miklum viðskiptum á hlutabréfamarkaðnum í mars er sú að fjárfestingarfélagið Horn seldi hlut sinn í Marel fyrir samtals 12,1 milljarð.

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 202 milljörðum í síðasta mánuði sem samsvarar 8,8 milljarða veltu á dag samanborið við  9,7 milljarða veltu á dag í febrúarmánuði. Mest voru viðskipti með ríkisbréf 133 milljarðar en viðskipti með íbúðarbréf námu 564 milljörðum.

„Viðskipti á skuldabréfamarkaði voru frekar róleg framan af mánuðinum og menn héldu að sér höndum þar til skýrsla Seðlabankans um afnám gjaldeyrishafta var lögð fram. Markaðurinn tók síðan ágætlega við sér og síðasta vika var sú næst veltumesta á árinu. Mikla veltu á hlutabréfamarkaði má rekja til stórra viðskipta með bréf Össurar og Marels, en Horn fjárfestingarfélag seldi sinn hlut í Marel fyrir rúma 12 milljarða. Þess fyrir utan voru viðskiptin á svipuðum nótum og undanfarna mánuði , en við væntum meiri virkni þar með nýskráningum fyrirtækja.“ , segir Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs NASDAQ OMX Iceland, í tilkynningu

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Landsbankinn með mestu hlutdeildina 86,1% (71% á árinu),  Virðing með 4% (4% á árinu) og Íslandsbanki með 2,5% (9,3% á árinu). Á skuldabréfamarkaði var MP Banki með mestu hlutdeildina 28% (27,2% á árinu), Íslandsbanki með 21,6% (22,6% á árinu) og Landsbankinn með 17,1% (18,6% á árinu).