Heildarviðskipti með hlutabréf í Kauphöllinni á árinu námu 506 milljörðum eða 2.042 milljónum á dag.  Þessu til samanburðar var veltan með hlutabréf árið 2017 632 milljarðar, eða 2.529 milljónir á dag. Þetta er 19% veltuminnkun frá fyrra ári. Nasdaq Iceland greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Mest voru viðskipti með bréf Marel (MARL), 96,8 milljarðar, Icelandair Group (ICEAIR), 57,2 milljarðar,  Reita fasteignafélags, 42,7 milljarðar, Festi, 37,4 milljarðar, og Haga (HAGA) 34,5 milljarðar.  Á Aðalmarkaði hækkaði verð bréfa Haga mest eða um 30% á árinu og næst verð bréfa Marel um 15%.  Á Nasdaq First North markaðnum hækkaði verð bréfa Iceland Seafood International mest eða um 34%.

Úrvalsvísitalan (OMXI8) lækkaði um 1,3% á árinu og stendur nú í 1.614 stigum. Heildarvísitala hlutabréfa lækkaði um 5,6%.

Markaðsvirði skráðra hlutabréfa var í árslok 960 milljarðar sem er 17% hærra en í lok síðasta árs.  Í lok árs voru 23 félög skráð, þar af 5 á Nasdaq First North. Á árinu 2018 voru hlutabréf þriggja félaga tekin til viðskipta, Arion banki og Heimavellir á Aðalmarkað og Kvika banki á First North.

„Vöxtur hlutabréfamarkaðar hélt áfram á árinu með þremur tímamótaskráningum. Kvika banki varð fyrsti bankinn til að vera skráður á markað eftir fjármálakreppuna, Heimavellir urðu fyrsta íbúðaleigufélagið til að fara á markað og Arion banki varð fyrsta félagið í yfir áratug til að verða samhliða skráð í tveimur kauphöllum Nasdaq á Norðulöndunum. Við horfum til frekari uppbyggingar á næsta ári. Skráningarhorfur eru góðar og smærri félög líta í auknum mæli til skráningar á First North markaðinn. Hugmyndir í Hvítbók um hvernig megi virkja verðbréfamarkaðinn í meira mæli lofa góðu og við verðum vör við aukinn áhuga erlendra fjárfesta í kjölfar ákvörðunnar FTSE vísitölufyrirtækisins að taka íslensk félög inn í vísitölur sínar á næsta ári.

Umfang bæði hlutabréfa- og skuldabréfaviðskipta var minna í ár en á síðasta ári en við teljum þar um tímabundna þætti að ræða og þá sérstaklega auknar fjárfestingar lífeyrissjóða erlendis og innflæðishöft. Höftin halda mjög aftur af þátttöku erlendra aðila á íslenska markaðnum sem aftur stendur í vegi fyrir fjármögnun íslenskra fyrirtækja á skuldabréfamarkaði," segir Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskipta og skráninga hjá Nasdaq Iceland.

Skuldabréf

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 1.066 milljörðum á árinu sem samsvarar 4,3 milljarða veltu á dag, samanborið við 5,0 milljarða veltu á dag árið 2017. Þetta er 13% minni velta en í fyrra. Alls námu viðskipti með ríkisbréf 808 milljörðum, viðskipti með bankabréf 161 milljarði og viðskipti með íbúðabréf 42 milljörðum.

Á árinu hækkuðu allar skuldabréfavísitölur Kauphallarinnar. Aðalvísitala skuldabréfa (NOMXIBB) hækkaði um 6,6% og stendur í 1.454 stigum.  Óverðtryggða skuldabréfavísitala Kauphallarinnar (NOMXINOM) hækkaði um 2,7% og sú verðtryggða (NOMXIREAL) hækkaði um 8,3%.