Tilboð Nasdaq kauphallarinnar í OMX jafngildir því að OMX er metið á 3,7 milljarða bandaríkjadala eða  233 milljarða króna. Þetta er 19% yfir lokagildi gærdagsins. Það er hins vegar 25% yfir meðalgengi síðustu 20 viðskiptadaga. Hlutföll við sameininguna eða yfirtökuna, hvernig sem menn kjósa að kalla það, er þannig að Nasdaq er metið 58% og OMX 42%.

Sameinað félag mun hafa 2.349 starfsmenn í 22 löndum.  OMX rekur kauphallir á Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð, Eistlandi, Lettlandi og Litháen.

Ekki er langt síðan Kauphöll Íslands og OMX sameinuðust. Formlega var gengið frá sameiningu Kauphallar Íslands við norrænu kauphöllina OMX 19. október 2006. Í þeim viðskiptum var Kauphöllin metin á 2,5 milljarða króna.

Hluthafar Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþing (EV) fengu greitt með 2.067.560 nýlega útgefnum hlutabréfum í OMX (1,7 prósenti af heildarfjölda útistandandi bréfa). Það jafngildir um 2,5 milljörðum íslenskra króna miðað við að hlutabréfaverð OMX sé 131 sænskar krónur. Í kjölfar þessara viðskipta var heildarfjöldi útistandandi hlutabréfa í OMX 120.640.467.