Hagnaður Íslandsbanka nam alls 19,1 milljarði króna eftir skatta á liðnu ári samanborið við 12,0 milljarða árið 2004, aukning um 60%. Þetta kemur fram í tilkynningu bankans til Kauphallarinnar. Stjórn bankans leggur til 5,4 milljarða króna arðgreiðslu.

Í tilkynningu bankans segir að hagnaður eftir skatta á fjórða ársfjórðungi nam 3,7 milljörðum en var 949 milljónir á fjórða ársfjórðungi í fyrra, aukning er um 295%. Hagnaður bankans fyrir skatta nam 23,4 milljörðum árið 2005, samanborið við 14,1 milljarð á árinu 2004. Hagnaður á hlut var 1,48 krónur árið 2005 en var 1,18 krónur árið áður.

Stjórn bankans hefur ákveðið að leggja til við aðalfund að greiddar verði 0,38 krónur á hlut í arð, heildararðgreiðsla verði því alls 5,36 milljarðar króna, eða 28% af hagnaði ársins eftir skatta.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 30% árið 2005, en var 44% á sama tímabili í fyrra.

Hreinar vaxtatekjur voru 23,4 milljarðar og jukust um 83% frá fyrra ári. Þær námu 6,6 milljörðum á fjórða ársfjórðungi samanborið við 4,0 milljarða á fjórða ársfjórðungi 2004.

Þóknanatekjur voru 8,8 milljarðar og jukust um 33% frá árinu 2004. Þær námu 2,9 milljörðum á fjórða ársfjórðungi samanborið við 2,0 milljarða á þriðja ársfjórðungi 2005.

Kostnaður sem hlutfall af tekjum var 38% á árinu 2005 en var 48% árið 2004

Heildareignir samstæðunnar námu 1.472 milljörðum króna í lok ársins og höfðu þá aukist um 117% frá áramótum eða um 795 milljarða.

Alþjóðleg fjármögnun móðurfélagsins nam um 6 milljörðum evra, jafngildi 450 milljarða íslenskra króna, í yfir 100 skuldabréfaútgáfum og lántökum. Þá varð fjárfestahópur bankans einnig fjölbreyttari á árinu með fyrstu útgáfum bankans í Ástralíu og Bandaríkjunum.

Heildarinnlán námu 335 milljörðum króna í lok ársins og höfðu aukist um 88% frá áramótum.

Eignir í stýringu námu 345 milljörðum króna og jukust um 36% á árinu.

Eigið fé nam 85 milljörðum króna í lok ársins og var eiginfjárhlutfall á CAD grunni 12,6%, þar af A-hluti 9,9%.

Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka segir að liðið ár sé besta ár bankans frá upphafi

"Hagnaður varð af öllum starfssviðum sem endurspeglar traustar stoðir bankans. Uppbygging í Noregi og á alþjóðavettvangi einkenndi starfsemina á árinu og mun sú uppbygging halda áfram af enn meiri krafti á þessu ári, segir Bjarni.

"Starfsfólk bankans hefur sem fyrr unnið frábært starf og hluthafar bankans hafa enn einu sinni sýnt trú sína í verki í hlutafjárútboði nú í byrjun nýs árs. Sóknarstaða bankans hefur því að mínu mati aldrei verið sterkari og þá stöðu munum við nýta á árinu 2006?.