Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur móttekið 191 umsókn um hlutdeildarlán. Þar af eru 129 umsóknir um lán á höfuðborgarsvæðinu og 62 á landsbyggðinni.  Úrvinnsla umsókna er í vinnslu og stefnt er á að úthlutun ljúki í fyrstu viku desember. Þetta kemur fram í svari HMS við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um málið.

Í svari HMS segir jafnframt að alls sé 71 byggingaraðili búinn að skrá sig og eru samanlögð byggingaráform þessa aðila 2.142 íbúðir. Af þessum íbúðum séu flestar á höfuðborgarsvæðinu eða 1.260 íbúðir, en 882 séu á landsbyggðinni, flestar á Suðurlandi og Suðurnesjum.

„HMS vinnur að því að yfirfara byggingaráformin til þess að samþykkja íbúðir sem uppfylla skilyrði Hlutdeildarlána um stærð og hámarksverð íbúða og er fyrirhugað að samþykki fyrir fyrstu íbúðunum liggi fyrir í þessari viku,“ segir að lokum í svari HMS.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra lagði fram frumvarp um hlutdeildarlán síðastliðið sumar og afgreiddi Alþingi frumvarpið frá sér sem lög í byrjun september. Áhugasamir geta kynnt sér hlutdeildarlánin hér .