Fyrirtækið 1912 hlaut á dögunum jafnlaunavottun VR og nær hún einnig til dótturfyrirtækjanna Nathan & Olsen, Ekrunnar og Góðs fæðis. Hjá fyrirtækjunum starfa 100 starfsmenn. 59% starfsmanna eru karlar og 41% konur.

„Óútskýrður launamunur kynjanna hefur verið mikið til umræðu í samfélaginu og finnst mér mikilvægt sem sonur, eiginmaður og faðir en ekki síst atvinnurekandi, að leggja mitt á vogarskálarnar til að gæta þess að konur beri ekki skarðan hlut frá borði,“ segir Ari Fenger framkvæmdastjóri 1912 í tilkynningu. „Þess vegna höfum við sett fram jafnlaunastefnu og komið upp jafnlaunakerfi til að tryggja að þessi mál séu í góðum farvegi hjá okkur,“ segir hann ennfremur.

„Við teljum sjálfsagt og eðlilegt að greiða sömu laun fyrir jafnverðmæt störf hvort kynið sem á í hlut,“ segir Inga Guðrún Birgisdóttir, mannauðsstjóri hjá 1912, í tilkynningunni. „Einnig finnst okkur mikilvægt að sanngirnis sé gætt við úthlutun launa og tekið sé tillit til m.a. reynslu, starfsaldurs og frammistöðu hvers og eins.“