Hagnaður Líflands ehf., sem flytur inn og selur hveiti, fóður og hestavörur ýmiss konar, nam 193 milljónum króna á síðasta ári sem er 346% aukning frá árinu áður þegar hagnaðurinn nam ríflega 43 milljónum króna.

Tekjurnar jukust á sama tíma um 3,3% og námu í heild 5,2 milljörðum meðan rekstrargjöldin stóðu nánast í stað í 4,8 milljörðum króna.

Eigið fé félagsins jókst um 14,3% á tímabilinu, úr 1,5 milljörðum í ríflega 1,7 milljarða, meðan skuldirnar drógust saman um 7%, úr 4,3 milljörðum í 4 milljarða.

Þar með drógust eignir félagsins saman um 1,4% og námu 5,8 milljörðum en eiginfjárhlutfallið hækkaði úr 26,1% í 30,2%. Þórir Haraldsson er forstjóri og eigandi helmings í félaginu á móti Horn III.

Laun og hlunnindi forstjóra námu 35,6 milljónum króna á árinu, eða rétt tæplega 3 milljónum á mánuði, en laun og hlunnindi stjórnarmanna námu 5,1 milljón króna.