*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Innlent 1. október 2021 09:24

1939 Games lýkur 692 milljóna útboði

Þrír kóreskir fjárfestingasjóðir leiddu 5,3 milljóna dala fjármögnun hjá íslenska tölvuleikjafyrirtækinu 1939 Games.

Ritstjórn
Ívar Kristjánsson, framkvæmdastjóri 1939 Games
Haraldur Guðjónsson

Tölvuleikjafyrirtækið 1939 Games hefur lokið 5,3 milljón dala hlutafjárútboði, eða sem nemur um 692 milljónum króna. Fyrirtækið efndi til útboðsins til að styðja við frekari vöxt og til að klára þróun og útgáfu tölvuleiksins KARDS fyrir iOS og Android snjallsíma og spjaldtölvur, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Fjármögnunin var leidd af þremur kóreskum fjárfestingasjóðum sem eru sagðir hafa gífurlega þekkingu á alþjóða leikjamarkaðnum, en þeir sjá mikil tækifæri fyrir leikinn í Kóreu og öðrum Asíulöndum í framtíðinni. Sjóðirnir sem um ræðir heita Korea Investment Partners, Woori Technology Invest Co. Ltd. og Seoul Investment Partners. Aðrir sjóðir sem komu að fjármögnuninni voru finnski tölvuleikjafjárfestingasjóðurinn Sisu Game Ventures og íslenski vísisjóðurinn Crowberry Capital.

Sjá einnig: Hagnaður á útgáfuárinu hjá 1939 Games

Leiksvið KARDS er síðari heimsstyrjöldin þar sem leikmenn mætast í einvígjum sem taka að jafnaði 5- 10 mínútur. KARDS er svokallaður „cross-multi-platform DCCG“ leikur sem stendur fyrir Digital Collectible Card Game og má þýða sem rafrænan safnkortaleik sem er a markaði í dag fyrir PC tölvur og verður gefin út fyrir síma á næsta ári. Áætlað er að um 60 milljónir manna spili svona leiki í hverjum mánuði og að þessi tegund leikja skili um 250 milljörðum króna í tekjur á þessu ári.

Ívar Kristjánsson, framkvæmdastjóri 1939 Games:

„Það er mikil viðurkenning á okkar starfi að fá svona öfluga fjárfesta að borðinu, sem hafa gífurlega þekkingu á þessu sviði og geta stutt enn frekar við það sem við erum að gera. Þetta fjármagn verður notað til að klára útgáfu leiksins fyrir farsíma og koma honum á markað, en þar liggja stærstu tækifærin fyrir leiki eins og Kards. Viðtökur hafa verið mjög góðar á leiknum á PC markaðnum og hafa yfir 700 þúsund leikmenn náð í leikinn og spilað hann og leikurinn er búinn að skila um 400 milljónum króna í tekjur.

Við munum stækka teymið töluvert á komandi vikum og mánuðum og bendi ég áhugasömum á að hafa samband í gegnum heimasíðu 1939 Games.

1939 Games hefur verið vel fjármagnað frá upphafi með aðkomu englafjárfesta ásamt frumherjastyrks, vaxtarstyrks og markaðsstyrks frá Tækniþróunarsjóði og með aðkomu sterkra alþjóðlegra og innlendra fjárfesta. Þá hefur frumkvöðlaumhverfið styrkst gífurlega á undanförnum misserum t.d. við hækkun á endurgreiðslu þróunarkostnaðar, sem var sett á sem tímabundið úrræði, en ég vonast til að verði framlengt um óákveðin tíma þar sem það er staðföst trú mín að það eigi eftir að skila gífurlegum þjóðhagslegum verðmætum til framtíðar,“ segir Ívar sem vill nota tækifærið og þakka þeim fjárfestum og Tækniþróunarsjóði fyrir þá trú sem þeir hafa haft á einstaklingunum sem standa að fyrirtækinu og þá framtíðarsýn sem hefur verið sett fram varðandi leikinn KARDS.”

Sang-Ho Park, framkvæmdastjóri Korea Investment Partners (KIP):

„Kards er ótrúlega vel gerður leikur sem við sjáum gífurlega möguleika í. 1939 Games hefur úr að ráða mjög öflugu starfsfólki sem hefur gert frábæra hluti á heimsmælikvarða. Fjárfesting okkar staðfestir trú okkar á teyminu á bak við leikinn ásamt því að við sjáum gífurleg tækifæri fyrir leikinn á Asíumarkaði þegar hann verður kominn út á snjallsíma.”

Hekla Arnardottir, stjórnarformaður 1939 Games og meðstofnadi Crowberry Capital:

„1939 Games hefur sýnt það undanfarin ár að þegar tækni og listir mætast á miðri leið með góðri markaðs reynslu þá er allt mögulegt. Með þessari fjárfestingu verður hægt að koma Kards á markað í gegnum fleiri söluleiðir þar á meðal snjallsímum. Aðkoma fjárfesta frá Suður Kóreu undirstrikar enn frekar tækifærin í Asíu.”