Ein þeirra tillagna sem fékk styrk félagsmálaráðherra í dag var Búháttasafn – hönnun og skipulagning sem Jóhanna Sveinsdóttir á heiðurinn af. Markmið verkefnisins er að skapa vinnustað í Ölfusi með 2–4 ársverkum við rekstur lifandi búháttasafns ásamt verndun gamalla muna og verklags en fræðsluþátturinn verður einnig stór. Viðskiptahugmyndin snýst um að stofna búháttasafn þar sem sýndir verða búhættir liðinnar aldar. Aðalmarkhópur safnsins eru börn og unglingar annars vegar og eldri borgarar hins vegar. Á safninu verður meðal annars handverk af ýmsu tagi og sýndar aðferðir við mjólkurvinnslu, sláturgerð, ullarvinnslu og hannyrðir sem verður hluti af dagskrá fyrir gesti. Þegar hafa verið lögð drög að samvinnu eldri borgara, grunnskóla og búháttasafnsins en börn og unglingar munu fá að upplifa og taka þátt í heimilishaldi og búskap þessa tíma. Enn fremur er stefnt að þróun kynningarefnis sem lýtur að heimilishaldi á tímabilinu 1925–1945.