Arion banki hefur hafið að veita svokölluð Núlán, sem þeir segja nýja tegund lána sem hægt sé að sækja um með rafrænum hætti á vef bankans að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Umsókn lánanna, undirritun lánasamnings og fylgiskjala er með rafrænum hætti sem gerir mögulegt að samþykkja og greiða lánin út til umsækjanda innan örfárra mínútna, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Núlán eru óverðtryggð með jöfnum afborgunum til allt að fimm ára. Vextir lánanna taka mið af lánshæfismati umsækjanda og hámarksfjárhæð þeirra byggir á lánaramma hvers og eins, og getur að hámarki verið tvær milljónir króna.

Óski umsækjandi eftir láni umfram lánaramma er auðvelt að ljúka rafrænu greiðslumati og senda inn umsókn til bankans. Þessi nýjung, líkt og aðrar sem bankinn hefur kynnt á síðustu misserum, er afrakstur þróunarvinnu Arion banka sem miðar að því að veita viðskiptavinum betri og þægilegri bankaþjónustu.