Áætlað er að það verði til 20 til 30 ný sprotafyrirtæki á Íslandi námsárið 2008-2009 í Viðskiptasmiðjunni.

Frá september 2008 fram til febrúar 2009 hafa 15 ný fyrirtæki verið stofnuð í Viðskiptasmiðjunni og má því áætla að líklegt sé, m.v. aukinn fjölda frumkvöðla í Viðskiptasmiðjunni, að 20-30 ný fyrirtæki verði stofnuð á námsárinu 2008- 2009.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðskiptasmiðjunni.

Þar kemur fram að frumkvöðlar eru valdir inn í Viðskiptasmiðjuna út frá fýsileika og möguleika viðskiptahugmyndar og þess framkvæmdateymis sem er á bak við hana.

Þá er áætlað að ný störf sem sköpuð verða í fyrirtækjum Viðskiptasmiðjunnar verði um 150 talsins á námsárinu 2008-2009. S

tarfaaukningin gerist með tvennum hætti. Annars vegar eru stofnuð ný fyrirtæki með 2-3 starfsmenn að meðaltali. Hins vegar eru þau sprotafyrirtæki sem þegar er búið að stofna þegar þau koma í Viðskiptasmiðjuna (eins og Stjörnu-Oddi, Trackwell, Stiki o.fl.) líkleg til þess að bæta við sig starfsmönnum þegar ný vaxtarstefna kemur til framkvæmdar.

„Miðað við að 15 ný fyrirtæki hafa orðið til í Viðskiptasmiðjunni frá september 2008 til febrúar 2009, þá hefur það í för með sér að 30-45 ný störf hafa orðið til nú þegar í nýjum fyrirtækjum,“ segir í tilkynningunni.

Ennfremur hafa þau fyrirtæki sem lengra voru komin flest hver bætt við sig starfsfólki. Vitað er að Clara, Gogoyoko, Trackwell, Stiki, Stjörnu-Oddi, AGR og Hafmynd hafa öll bætt við sig starfsmönnum, samanlagt um 30 nýjum störfum.

„Þar af leiðandi hafa fyrirtæki Viðskiptasmiðjunnar nú þegar skapað hátt í 75 störf,“ segir í tilkynningunni.

„Óhætt er að áætla að miðað við að 20-30 fyrirtæki verði stofnuð í Viðskiptasmiðjunni á námsárinu 2008-2009 og að flest ef ekki öll fyrirtækin eru ört vaxandi að 150 ný störf verði sköpuð í fyrirtækjum Viðskiptasmiðjunnar.“

Um 500 milljóna króna fjárfesting

Þá er að lokum áætlað að frumkvöðlar, ættingar og vinir þeirra, styrktarsjóðir, viðskiptaenglar og áhættufjárfestingasjóðir muni fjárfesta rúmlega 500 milljónum króna í sprotafyrirtækjum Viðskiptasmiðjunnar.

Um 70-80% af fjármögnun sprotafyrirtækja er með eigin fjármagni frumkvöðla og fjármagni frá vinum og vandamönnum samkvæmt rannsóknum Global Entrepreneurship Monitor (2008). Ennfremur fá fyrirtæki styrki úr styrktarsjóðum eins og Tækniþróunarsjóði, Átak til atvinnusköpunar og fleiri sjóðum.

Loks eru áhættufjárfestingasjóðir eins og Frumtak, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Auður Capital, Thule Investments og fleiri sjóðir sem fjárfesta í sprotafyrirtækjum.

„Áhættufjárfestingasjóðir eru líklegir til að fjárfesta í fyrirtækjum Viðskiptasmiðjunnar þar sem vettvangurinn dregur úr áhættu, tryggir gæði á sprotafyrirtækjum og eykur líkur á að verið sé að búa til vaxtarfyrirtæki,“ segir í tilkynningunni.