Á seinasta ári mynduðust um 20% af tekjum Skipta af erlendri starfsemi en það hlutfall stefnir í 25% og fer vaxandi.  Þetta kom fram í ræðu Lýðs Guðmundssonar, stjórnarformanns Skipta á aðalfundi félagsins rétt í þessu.

Þá sagði Lýður að þegar Síminn var einkavæddur árið 2005 hafi fyrirtækið einungins verið með starfssemi á Íslandi en nú hafi Skipti, móðurfélag Símans bætt við sig starfssemi í Bretlandi, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

„Við erum þess fullviss að með hundrað ára reynslu í farteskinu séu Skipti vel í stakk búinn til þess að skipa sér í forystusveit í tæknilausnum og fjarskiptaþjónustu í Evrópu,“ sagði Lýður.

Þá segir Lýður að rekstur Skjásins árið 2007 hafi einkennst af uppgjörum, tiltekt og áherslu á hagræðingu til framtíðar.

„Tekjur félagsins jukust um 4% á árinu þrátt fyrir það að í maí hætti Skjárinn útsendingum enska boltans undir merkjum SkjárSport. Upp úr miðju ári var lögð aukin áhersla á markaðssetningu SkjásHeims og SkjásBíós, þjónustu sem eingöngu er aðgengileg í gegnum Sjónvarp Símans, með góðum árangri. SkjárBíó er án alls vafa orðin stærsta vídeóleiga landsins og í desember einum voru pantaðar hvorki meira né minna en 128 þúsund kvikmyndir og sjónvarpsþættir. Úrval efnis í SkjáBíói hefur aldrei verið meira og  Íslendingar eru komnir á bragðið enda tekjurnar af SkjáBíó 66% hærri en árið á undan.  SkjárEinn hefur jafnframt sterka stöðu á auglýsingamarkaði um þessar mundir, enda er hlutdeild stöðvarinnar á auglýsingamarkaði tæp 40%,“ sagði Lýður í ræðu sinni.

Breyttar áherslur í Noregi

Rekstur upplýsingatæknifélagsins Sirius IT gekk vel á árinu 2007 sagði Lýður. Veltan á nam 5,3 milljörðum króna og EBITDA 464 milljónum króna eða um 14% umfram áætlanir.

Starfsemin byggir fyrst og fremst á víðtækri hugbúnaðarþjónustu við annars vegar opinbera aðila og hins vegar einkafyrirtæki.  Starfsemin fer fram í þremur löndum, Danmörku, Noregi og Svíþjóð og hjá félaginu starfa nú um 390 manns.

Þá sagði Lýður að verulegar breytingar hafi verið gerðar á starfseminni í Svíþjóð, en þar var ákveðið að endurskipuleggja og hagræða, m.a. með því að loka tveimur skrifstofum af fimm. Keypt var 24 manna viðskiptaeining á sviði smásölu, af TietoEnator.

„Í Noregi var áherslum breytt, horfið var frá áhættusömum verkefnum er snúa að innleiðingu staðlaðra lausna, en lögð meiri áhersla á að þjóna stærri viðskiptavinum með sérhæfðari lausnir. Vonir standa til að þessar breytingar muni skila enn betri árangri í framtíðinni.“

Óvíst með Telecom

Undanfarna mánuði hafa Skipti átt í viðræðum við yfirvöld í Slóveníu um kaup á slóvenska fjarskiptafélaginu Telekom Slovenije en ríkisstjórnin í Slóveníu ákvað í mars á síðasta ári að selja stærstan hlut sinn í félaginu. Þann 15. október skiluðu Skipti fyrst óbindandi tilboði og svo bindandi tilboði þann 4. janúar.

„Staða málsins nú er að við eigum enn í viðræðum við einkavæðingarnefndina. Næstkomandi mánudag, þann 3. mars,  hyggst nefndin tilkynna niðurstöðu sína og þá fyrst verður ljóst hvort nefndin mælir með því við ríkisstjórn Slóveníu að Telekom Slovenije verði selt Skiptum,“ sagði Lýður.

Gjörbreytt fyrirtæki frá 2005

Lýður sagði að Skipti væri gjörbreytt frá einkavæðingu árið 2005, en þá voru tekjur félagsins 22 milljarðar kr. og EBIDTA tæpir 7,5 milljarðar kr.  Starfsmannafjöldi var 1370 og starfsemi einungis á Íslandi. Á árinu 2007 var veltan yfir 30 milljarðar og EBITDA um 9,5 milljarðar.

„Starfsmenn okkar eru nú um 1900 í 5 löndum. Þessi árangur hefur náðst með samstillu átaki frábærra stjórnenda og starfsfólks ásamt vel ígrundaðri ákvarðanatöku. En framundan eru ekki síður spennandi tímar hjá fyrirtækinu. Á allra næstu vikum verður félagið skráð í Kauphöll Íslands og hefst þá nýr kafli í sögu þess,“ sagði Lýður