Ársfundur atvinnulífsins 2019 verður haldinn í dag milli klukkan 14.00 og 16.00 í Eldborg í Hörpu, en Samtök atvinnulífsins voru stofnuð fyrir tuttugu árum. Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður samtakanna, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, flytja ávörp.

Þeir Eyjólfur Árni og Halldór Benjamín líta yfir farinn veg og rýna í það sem hefur áunnist frá 1999 í sínum ávörpum, ásamt því að draga upp mynd af þeim áskorunum sem eru fram undan. Í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu í dag lista þeir upp hluta af þeim.

Jafnframt munu þeir Ásmundur Stefánsson, forseti Alþýðu-sambands Íslands á árunum 1980-1992, og Þórarinn Viðar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands árin 1986-1999, bregða upp svipmynd af þeirri sögulegu sátt sem náðist með þjóðarsáttarsamningunum árið 1990.

Gestir fundarins fá nýja bók Guðmundar Magnússonar um sögu vinnumarkaðar og efnahagslífs síðustu tveggja áratuga. Frá Þjóðarsátt til Lífskjarasamnings. Samtök atvinnulífsins 1999-2019. Boðið verður upp á sjónvarpsstreymi frá fundinum í Hörpu í dag.

Samtök atvinnulífsins eru heildarsamtök íslensks atvinnulífs með sex aðildarsamtökum sem starfa á grunni atvinnugreina. Yfir 2.000 fjölbreytt fyrirtæki eiga aðild að Samtökum atvinnulífsins, allt frá sjálfstætt starfandi frumkvöðlum til stærstu fyrirtækja landsins. Hjá aðildarfyrirtækjum SA starfa um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði, yfir 100 þúsund manns.