Millilandaflug voru 20% færri frá Keflavíkurflugvelli til útlanda í nóvember en í október síðastliðnum. Talning netmiðilsins Túrista.is bendir til að flugferðirnar hafi verið tæplega 700. Inni í tölunum eru aðeins áætlanaflug.

Túristi segir Icelandair eiga tvær af hverjum þremur ferðum á sumrin. Í nóvember hafi brottfarir á vegum félagsins verið 76,3% allra brottfara. Til samanburðar er Wow air með 14,3 prósent hlutdeild en það er næststærst. Túristi bendir á að þrjú erlend flugfélög fljúgi hingað allt árið um kring og er Easy Jet þeirra umsvifamest. Félagið flýgur til þriggja breskra borga og bætir þeirri fjórðu við síðar í þessum mánuði þegar flug hefst til Bristol. SAS og Norwegian fljúga hingað frá Osló.

Vægi flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli í nóvember, í brottförum talið:

  1. Icelandair: 76,3%
  2. Wow air: 14,3%
  3. Easy Jet: 4,6%
  4. SAS: 3,1%
  5. Norwegian: 1,7%