Alls töldust 8.700 manns starfandi í fjármálaþjónustu árið 2007 og fjölgaði þeim um 20% milli ára. Þetta kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins. Það vekur athygli að frá árinu 2005 hefur körlum fjölgað um 71% meðan konum hefur fjölgað um 11%.

Í vefriti ráðuneytisins er bent á að íslenskar fjármálastofnanir hafa vaxið mjög undanfarin ár, bæði erlendis og hérlendis, að umfangi og mannafla. Þessi þróun hefur þó ekki staðið lengi. Einkavæðingu viðskiptabankanna var endanlega lokið snemma árs 2003 og fjöldi starfsmanna í þessum geira atvinnulífsins hafði þá farið nokkuð minnkandi um nokkurra ára skeið. Það er í raun ekki fyrr en árið 2006 sem fjölgun starfsmanna í fjármálaþjónustu fer að verða áberandi en þá fjölgaði þeim um 11%. Árið 2007 fjölgaði þeim enn, og nú um tæp 20%.