Flugfélögin Iberia, Czech Airlines og Germania bættu Íslandi við leiðakerfi sín í vikunni og á sunnudaginn hóf British Airways áætlunarflug hingað til lands. Með þessari viðbót er útlit fyrir að í hið minnsta tuttugu flugfélög muni bjóða upp á áætlunarflug til og frá Keflavíkurflugvelli næsta sumar. Þetta kemur fram í samantekt á vef Túrista.is .

Í fyrrasumar voru flugfélögin sextán talsins en árið 2007 voru þau aðeins fimm. Bent er á í samantektinni að við allt áætlunarflugið bætist svo reglulegt leiguflug á vegum íslenskra og erlendra ferðaskrifstofa auk ferða frá flugvöllum á Akureyri, Egilsstöðum og Reykjavík.