Úrvalsvísitalan hækkaði lítillega í 2,8 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Marels sem hækkuðu um 0,4% í yfir 800 milljóna viðskiptum.

Alvotech stóð upp úr í viðskiptum í Kauphöllinni í dag en viðskipti með hlutabréf lyfjalíftæknifyrirtækisins færðust af íslenska First North-markaðnum yfir á aðalmarkaðinn í morgun.

Hlutabréfaverð Alvotech hækkaði um 20% í 121 milljónar króna viðskiptum. Hækkunin var einkum drifin áfram af litlum viðskiptum en fjöldi viðskipta var 121 talsins og meðalkaupverð nam því um einni milljón króna.

„Flutningur frá Nasdaq First North vaxtarmarkaðnum yfir á Aðalmarkaðinn er mikilvægt skref fyrir okkur,“ sagði Robert Wessman, stjórnarformaður og stofnandi Alvotech, í tilkynningu eftir lokun Kauphallarinnar í dag. „Skráning á Aðalmarkaðinn gerir okkur betur kleift að laða að breiðari hóp fjárfesta, bæði hérlendis og erlendis.“

„Við erum stolt af því að bjóða Alvotech velkomið á Aðalmarkað Nasdaq Iceland,“ sagði Magnús Harðarson, forseti Nasdaq Iceland. „Flutningurinn hjálpar Alvotech að skapa aukin verðmæti fyrir núverandi hluthafa sína og að auki bjóða fleiri nýja velkomna í hópinn fram veginn. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs með þeim og að styðja við þau á Aðalmarkaðnum með auknum sýnileika og aðgengi að fjárfestum.“

Róbert Wessman og Magnús Harðarson
© Aðsend mynd (AÐSEND)