Hagnaður Össurar á öðrum ársfjórðungi nams 4,6 milljónum dala eða 296 milljónum króna og jókst um 20% á milli ára.

Sala á öðrum fjórðungi ársins 2005 var sú mesta í sögu fyrirtækisins. Salan nam 35,4 milljónum Bandaríkjadala (2,3 milljörðum íslenskra króna*) samanborið við 31,8 milljónir á fyrra ári.

Sala jókst um 13% í Bandaríkjadölum en sala áframhaldandi starfsemi mæld í staðbundinni mynt jókst um 11%.

Hagnaður á hlut (EPS) var 1,47 bandarísk sent samanborið við 1,22 sent á hlut á öðrum ársfjórðungi 2004 sem er aukning um 20%.

Góðan árangur má rekja til þess að vel gekk á öllum markaðssvæðum en miklu munar um að mjög góður vöxtur var í sölu stoðtækja á Bandaríkjamarkaði en þar jókst salan milli ára um nærri 16%. Sala stuðningstækja gekk ennfremur betur á Bandaríkjamarkaði en verið hefur, salan dróst ekki lengur saman heldur stóð í stað. Í heild jókst sala á Norður- Ameríkumarkaði um 10%, mæld í staðbundinni mynt. Góður gangur var á mörkuðum í Evrópu og jókst sala þar um 10% í staðbundinni mynt. Tímabundin vandamál, sem drógu niður vöxt á fyrsta fjórðungi og gerð var grein fyrir þá, eru að baki. Á Norðurlöndum gekk áfram vel, söluaukning milli ára er 11% í staðbundinni mynt. Sala á öðrum alþjóðlegum mörkuðum var afar góð og jókst um 16% milli ára.

Framlegð var góð á öðrum ársfjórðungi eða 61% samanborið við 60% á sama tímabili í fyrra. Meðalgengi dals var 12% lægra í krónum talið á öðrum fjórðungi 2005 en á öðrum fjórðungi 2004. Það sama var upp á teningnum á fyrsta fjórðungi, meðalgengið var 12% lægra en á fyrra ári. Þetta grefur undan framlegð fyrirtækisins eins og áður hefur komið fram. Hinsvegar styrkir sterk Evra á móti dal framlegð fyrirtækisins. Evra var að meðaltali um 5% hærri en dalur á fyrsta og öðrum fjórðungi ef miðað er við sambærilega fjórðunga á fyrra ári. Það gagnast framlegðinni nokkuð að vöxtur í Evrópu var góður í löndum þar sem meðalverð er hærra. Sá vöxtur leiddi til þess að framlegð þar var aðeins umfram áætlanir. Um 0,7% framlegð má rekja til lækkunar á niðurfærslu vegna úreltra vara.

Hlutfall rekstrarútgjalda af sölu var áþekkt því sem verið hefur. Markaðs- og sölukostnaður var í lægri kantinum en stjórnunarkostnaður heldur hærri. Rannsóknar- og þróunarkostnaður er sem fyrr allur gjaldfærður í rekstrarreikningi. Rekstrarhagnaður var 18% af sölu, hagnaður 13% og hagnaður fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) var 22%.