Ólíklegt er að allt að fimmtungslækkun mest seldu einstöku bíltegundarinnar hér á landi í fyrra – Tesla Model Y jepplingnum – hafi náð inn í verðmælingu fyrir Vísitölu neysluverðs í janúar, sem sýndi 9,8% hækkun bílverðs milli mánaða.

Árstaktur verðbólgunnar mældist 9,9% í janúar sem var nokkru yfir spám greiningaraðila, en sá undirliður sem kom flestum mest á óvart var bílverðið. Nokkur hækkun liðarins hafði þó verið viðbúin þar sem 5% lágmarksvörugjald á alla bíla tók gildi um áramótin samkvæmt fjárlögum og batt þar með enda á áratug af vörugjaldsleysi rafbíla. Eðli máls samkvæmt má þó vart rekja alla hækkunina þangað.

Á meðan mörg bílaumboð hækkuðu verð á nýju ári vegna vörugjaldsins, tók rafbílaframleiðandinn Tesla sig hins vegar til og lækkaði verð á Model Y eins og áður sagði um allt að 20%, og tók í leiðinni alfarið á sig vörugjaldið.

Yfir þúsund bílar og sjöundi hver rafbíll

Verðkönnun Hagstofunnar var framkvæmd dagana 9.-13. janúar, en Tesla tilkynnti um verðlækkunina að morgni þess 13. Hagstofan gefur ekki nákvæmar upplýsingar um framkvæmd verðkannana, en það má teljast ólíklegt að lækkunin hafi ratað inn í janúarmælinguna.

Model Y var mest seldi bíll landsins í fyrra með yfir þúsund eintök nýskráð yfir árið og því ljóst að lækkunin gæti vegið nokkuð þungt. Fjórar af hverjum fimm Tesla-bifreiðum og ríflega einn af hverjum sjö nýskráðum rafbílum í fyrra voru Tesla Model Y.

Þess má svo einnig geta að Ford lækkaði nokkrum dögum síðar verð rafbíls síns og Tesla-keppinautar, Mach-E um allt að tæp 9%, og margir búast við að fleiri muni fylgja í kjölfarið.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaði vikunnar.