Endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna endurbóta og viðhalds námu alls 19,7 milljörðum króna á nýliðnu ári. Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar, telur að mikilvægt sé að framlengja átakið út þetta ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samiðn.

Í tilkynningunni kemur fram að heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda og endurbóta hafi verið hækkuð úr 60% í 100% til að bregðast við niðursveiflu í kjölfar heimsfaraldursins. Alls bárust ríflega 45 þúsund umsóknir um endurgreiðslu á síðasta ári en það er fjórföldun frá árinu á undan. Rétt er að taka fram að umsóknir vegna síðasta árs geti enn borist og því mögulegt að talan komi til með að hækka.

„Átakinu Allir vinna ber að fagna og einnig því ákveðið var að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna vinnu við íbúðarhúsnæði fram til ársloka 2021, og víkka út þá heimild þannig að hún taki m.a. einnig til húsnæðis í eigu sveitarfélaga og bílaviðgerða. Við hjá Samiðn lögðum mikla áherslu á þetta átak Allir vinna enda er það atvinnuskapandi og einnig mikilvægt út frá neytendasjónarmiðum enda tryggir það enn frekar að leitað sé til fagmanna sem er mikið kappsmál allra. Covid ástandið hefur gert það að verkum að það er ágjöf á atvinnuífið og því er sérlega brýnt að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og stuðla að því skili mikilvægum virðisaukandi verkefnum til samfélagsins,“ er haft eftir Hilmari í tilkynningunni.

Að mati Hilmars er enn hægt að gera betur hvað opinberar framkvæmdir varðar og þurfi ríki og sveitarfélög að spýta í lófana líkt og lofað var. Þar komi sérstaklega til greina framkvæmdir í vegakerfi og við mannvirkjagerð.

„Verulega hefur skort á viðhaldsframkvæmdir hjá hinu opinbera síðustu misserin og nú er lag að bregðast við uppsafnaðri þörf. Brýnt er að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og stuðla að því að greiðslur úr ríkissjóði skili mikilvægum, virðisaukandi verkefnum til samfélagsins. Þá er augljóslega tækifæri nú fyrir sveitarfélögin nú að nýta sér umrædda endurgreiðslu á virðisaukaskatti hefur í för með sér. Til lengri tíma litið felast tækifæri að horfa til nýsköpunar og hvernig nýta megi hana til frekari virðisauka fyrir íslenskt samfélag,“ segir formaðurinn.