Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur úthlutað ríflega 3,6 milljörðum króna í stofnframlög til byggingar og kaupa á 600 hagkvæmum leiguíbúðum víðs vegar um landið, svokallaðra almennra íbúða.

Leiguíbúðirnar verða í 15 sveitarfélögum en 472 þeirra verða á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru átta íbúðir á Austurlandi, 14 á Norðurlandi eystra, 13 á Norðurlandi vestra 10 á Suðurlandi, 12 á Suðurnesjum, 4 á Vestfjörðum og 67 á Vesturlandi.

Fjármunirnir verða nýttir til byggingar á 438 íbúðum og kaupa á 162 íbúðum. Ljóst er að stofnvirði þeirra verkefna sem samþykkt voru í þessari úthlutun fela í sér fjárfestingu á húsnæðismarkaði upp á tæplega 20 milljarða króna. Þar af fara tæpir 14 milljarðar í uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði og 6 milljarðar í kaup.

Sem stuðning við lífskjarasamningana ákvað ríkisstjórnin að auka framlögin til almenna íbúðakerfisins um 2,1 milljarð árlega á árunum 2020 til 2022 til þess að flýta fyrir uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði og stuðla að auknu húsnæðisöryggi leigjenda.

Alls bárust HMS 35 umsóknir um samtals 5,6 milljarða króna og af þeim voru 31 umsóknir samþykktar, ýmist að fullu eða að hluta til. Sveitarfélög nutu forgangs við úthlutunina og hlutu alls um 1,2 milljarða króna.

Á síðustu fjórum árum hefur HMS úthlutað ríflega 15 milljörðum króna í stofnframlög til byggingar og kaupa á rúmlega 2.600 almennum íbúðum fyrir hönd ríkissjóðs. Nú þegar hafa um 600 fjölskyldur flutt inn í almennar íbúðir á langtímaleigu.

„Þær 600 íbúðir sem verið var að úthluta til núna er gríðarlega mikilvæg viðbót við almenna íbúðakerfið. Sú mikla eftirspurn sem er eftir stofnframlögum sýnir svo ekki verður um villst að enn er mikil vöntun á hagkvæmum leiguíbúðum þar sem fjölskyldur geta búið sér til öruggt heimili til langs tíma,“ er haft eftir  Önnu Guðmundu Ingvarsdóttur, aðstoðarforstjóra HMS í fréttatilkynningu.

„Það er því fagnaðarefni að stjórnvöld hafi ákveðið að auka framlög til almenna íbúðakerfisins á komandi árum, sérstaklega nú þegar atvinnuleysi hefur aukist í kjölfar COVID-19 og fyrirséð að þörfin eftir ódýru leiguhúsnæði muni aukast sömuleiðis.“