Mottumars , átaki Krabbameinsfélagsins, lýkur í dag. Nú hafa safnast tæpar 20 milljónir króna. Í fyrra söfnuðust 29 milljónir í áheitakeppninni en félagið fékk þar að auki um 6 milljónir í öðrum styrkjum.

Átakið var sett af stað til þess að vekja athygli á nauðsyn þess að þekkja almenn einkenni krabbameins og hvetja karlmenn til að fara í skoðun. Árlega greinast á Íslandi að meðaltali 725 karlar með krabbamein. Hægt er að heita á keppendur á vefsíðunni Mottumars.is.

Vilhjálmur Óli Valsson hefur enn sem komið er safnað mestu í einstaklingskeppninni með 861 þúsund krónum. Í liðakeppninni er Valitor efst með 704 þúsund krónur.

Ragnheiður Haraldsdóttur hjá Krabbameinsfélaginu segir að í ár sé marsmánuður styttri vegna páskanna, en þegar hafi safnast meira en á sama tíma í fyrra.