Yfir 20 milljónir manna í 230 löndum hafa nú náð í spurningaleikinn QuizUp, að því er fram kemur í tilkynningu. Íslenska fyrirtækið Plain Vanilla hannaði leikinn.

Leikurinn var gefinn út i nóvember sl. og síðan hefur notendum fjölgað gífurlega hratt. Alls hafa notendur nú spilað rúma tvo milljarða leikja, sem samsvarar um sex milljónum leikja á hverjum degi. Í QuizUp er að finna 220 þúsund spurningar í rúmlega 400 flokkum.

Nýverið gaf Plain Vanilla leikinn út í sérstakri útgáfu fyrir Þýskaland og Spán, þar sem þarlendir notendur gátu svarað spurningum á sínu eigin móðurmáli á meðan þeir kepptu við spilara um allan heim. Leikurinn er venjulega á ensku en unnið er að því að þýða leikinn yfir á fleiri tungumál, t.a.m. kínversku.

Í tilkynningunni er haft eftir Þorsteini Baldri Friðrikssyni, stofnanda og forstjóra Plain Vanilla, að þróunin síðasta hálfa árið hafi verið mikið ævintýri og leikurinn hafi vaxað hraðar en aðstandendur hans þorðu að vona.