20% af æðstu yfirmönnum 400 stærstu fyrirtækja í Danmörku viðurkenna að hafa logið varðandi t.d. menntun og fyrri starfsreynslu í starfsviðtölum, að því er rannsókn sem ráðgjafafyrirtækið MarketWatach hefur gert og fréttastofa Ritzau greinir frá.

Það er athyglisvert í því samhengi að 85% aðspurðra töldu sig hins vegar á hærri siðferðisstalli en aðrir í sambærilegum stöðum.

Þegar sannsögli yfirmannanna í einkalífinu var prófuð reyndist niðurstaðan ekki heldur vera fagur vitnisburður um siðferði þeirra.

Einn af hverjum fjórum viðurkenndi að hafa verið ótrúr maka sínum og 75% nýtir ólöglegt vinnuafl á heimili sínu.

Siðferðið ekki eftir hentugleikum

Keld Jensen, einn eigenda MarketWatch, vill meina að þetta séu slæm tíðindi því að æðstu yfirmönnum stórra fyrirtækja beri að vera góð fyrirmynd.

„Í dag eru æðstu yfirmenn fyrirtækja upphafnir í mörgum fjölmiðlum sem nokkurs konar gúrúar og geta tjáð sig um allt frá stjórnmálum til einkahaga. Þeim ber skylda til að taka af skarið og verða góðar fyrirmyndir á mörgum sviðum, líka þegar um er að ræða siðferði þeirra og hegðun í einkalífinu, sem er ekki eins og yfirhöfn sem menn geta afklæðst þegar þeir yfirgefa vinnustaðinn og halda heim,” segir Keld Jensen.