Guðmundur Arnar Guðmundsson, markaðsstjóri Nova, áætlar að um 20 þúsund manns hafi skautað á svellinu á Ingólfstorgi sem fyrirtækið setti upp fyrir jólin. Hann segir rekstur svellsins hafa gengið mjög vel og að miklar líkur séu á því að leikurinn verði endurtekinn um næstu jól. „Það var engu stolið, ekkert skemmt, það var enginn sem slasaði sig. Það gekk allt svo áfallalaust fyrir sig. Við vorum búin að gera ráðstafanir sem gerðu ráð fyrir svo allt öðruvísi ástandi. Við þurftum miklu minna að grípa inn í. Það er bara frábært,“ segir hann.

Guðmundur segir svellið ekki hafa verið rekið með hagnaði, enda hafi það ekki verið markmiðið. Hann vill ekki upplýsa um kostnaðinn við uppsetningu og rekstur svellsins, en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hljóp kostnaðurinn á tugum milljóna króna.