Í síðustu viku var stofnað á Íslandi félag sem mun reka gagnaver á Íslandi og þjónustu tengdri því. Félagið heitir DataCell og er til húsa að Skúlagötu 19, Reykjavík. Forsvarsmaður á Íslandi er Ólafur Sigurvinsson. Auk þess að reka gagnaver á Íslandi mun félagið reka sambærilega þjónustu í Sviss, Bretlandi, Finnlandi og Bandaríkjunum segir í tilkynningu.

Þar kemur fram að þegar hafa um 200 fyrirtæki óskað eftir hýsingu hjá félaginu, sérstaklega á Íslandi, í ljósi orkuverðs og staðsetningar. Sóst er eftir þjónustu sem spannar allt frá hýsingu á sýndarþjónum sem keyra á búnaði í eigu DataCell til leigu á rými fyrir stærri aðila sem geta sett inn sinn eigin búnað. Þeir síðarnefndu kaupa þjónustu frá aðilum hér á landi sem DataCell mun hafa umsjón með að útvega. Unnið er að því að stofna til samstarfs við aðila sem þjónusta þá flóru vél- og hugbúnaðar sem gagnaver hýsa almennt.

Rekstur á að hefjast í september

Í tilkynningu segir að mikil sérfræðiþekking sé í félaginu og eru aðstandendur þess frá ofangreindum löndum. Þeir hafa starfað í hýsingargeiranum í langan tíma og staðið að stofnum gagnavera og internetþjónustufyrirtækja, auk símafélaga,  um allan heim, frá Reykjavík til Singapúr.

Reiknað er með að rekstur hefjist formlega í september með þjónustu við fyrstu viðskiptavinina á Íslandi. Margir stærri hýsingarsamningar eru í burðarliðnum og ljóst er að lega landsins og verð á raforku eiga stóran þátt í því að Ísland er mjög samkeppnishæft á þessum markaði þar sem kostnaður og pólitík skipta miklu máli við staðsetningu gagna. Sérhæfing DataCell felst í vistun á gögnum og hugbúnaði sem þjóna símafyrirtækjum, bönkum og verslun.