Fjarskiptafyrirtækið Thus Group hefur skrifað undir 12 milljón punda (tæpir 2 milljarðar íslenskra króna) samning við Farice hf., sem kveður á um að sjá skuli Íslendingum fyrir háhraðanettengingu. Farice rekur sæstreng til Íslands.

Thus Group leggja til tengingu til Íslands sem heldur uppi 200 Gb á sekúndu hraða. Samkvæmt frétt Hemscott um málið er þess vænst að nýja tengingin styðji við uppbyggingu gagnageymslna og netþjónabúa hér á landi.

Farice hf. hefur einnig undirritað samning við Thus um landleiðir fyrir sæstrenginn í Bretlandi. Samningurinn er til 10 ára og mun Thus útvega 100 Gb á sekúndu samband frá landtökustöð Farice-1 sæstrengsins til afhendingarstaðar þjónustu Farice hf. í London.