Tvo stór hótel hafa eða munu opna á Laugaveginum í þessum mánuði, og bætist nú samanlagt hátt í 200 hótelherbergi við götuna. Nýlega hóf lúxushótelið ION City Hotel á Laugavegi 28 starfsemi sýna, en þar eru 18 herbergi, þar af nokkrar stórar svítur, að því er Morgunblaðið greinir frá.

Hótel og viðbót við annað opnar um mánaðamót

Hitt hótelið, Sandhótel, opnar formlega á fimmtudag, sem reyndar er 1. júní, en það verður í fullbyggt í sjö samtengdum húsum, sem eru við Laugaveg 32b, 34 a og b, og 36, en húsin snúa bæði að Laugavegi og Grettisgötu. Á hótelinu verða til að byrja með 53 herbergi, og svo bætast 13 við næsta haust, og loks nær herbergjafjöldinn tæplega 80 vorið 2018.

Stærsta viðbótin er svo ný álma við CenterHotel Miðgarð við Hlemm, sem opnar einnig um mánaðamótin, en þar bætast nú 127 herbergi við þau 43 sem þar voru fyrir.

Loks verður nýtt íbúðahótel opnað í sumar, en það er á Laugavegi 59, í gamla húsi Kjörgarðs, þar sem Bónus hefur verið til húsa. Hvort tveggja þar sem og á jarðhæð ION City Hotel koma svo nýir veitingastaðir. Heildarkostnaður við þessi fjögur verkefni er að lágmarki 2,5 milljarðar króna.