Yfirvöld í Kína hafa handtekið tæplega 200 manns fyrir að dreifa orðrómum á netinu um hrun á verði hlutabréfa þar í landi sem og sprenginguna sem átti sér stað í verksmiðju í Tianjin.

Meðal þeirra handteknu er Wang Xiaolu, blaðamaður hjá viðskiptatímaritinu Caijing Magazine. Kínverskir ríkisfjölmiðlar segja hann vera grunaðan um að hafa „í samráði við aðra búið til sögur um hlutabréfamarkaðinn og dreift þeim“.

Þá hafa einhverjir opinberir starfsmenn verið handteknir, þar á meðal Liu Shufan, sem er hátt settur innan fjármálaeftirlitsins. Hann hefur verið sakaður um mútur og hin ýmsu svik. Þá voru fjórir hátt settir einstaklingar hjá kínverska fjárfestingabankanum Citic Securities handteknir vegna gruns um innherjasvik.

Það er nokkuð algengt að fólk sé handtekið í Kína fyrir að deila orðrómum, en fjölmiðlum þar í landi er stýrta f yfirvöldum og samfélagsmiðlar á borð við Facebook eru ekki leyfilegir. Þá er aðgangur að mörgum erlendum vefsíðum heftur.

Hlutabréfamarkaðurinn í Kína hefur hrunið umtalsvert undanfarnar vikur, en fyrr á árinu náði hann áður óséðum hæðum.