Íslenska líftæknifyrirtækið SagaNatura hefur hlotið 200 milljóna króna styrk úr H2020 áætlun Evrópusambandsins sem nefnist SME Instrument. SagaNatura var meðal þúsunda fyrirtækja sem sóttu um styrkveitingu til Evrópusambandsins. SagaNatura er starfrækt í Hafnarfirði og hefur að geyma tvö meginvörumerki, KeyNatura og SagaMedica.

Í tilkynningu frá félaginu segir að styrknum verði varið í að sanna virkni efnis sem unnið er úr hvönn með klínískri rannsókn ásamt því að hanna nýja vöru með stöðluðu magni af þessu virka efni. Styrkurinn muni einnig nýtast í að hefja ræktun og kynbætur á hvönn með því markmiði að auka magn þessa virka efnis sem finnst í hvönninni. Tilgangur verkefnisins sé að hjálpa þeim sem kljást við ofvirka blöðru með náttúrulegri lausn sem sé án allra aukaverkana.