Byggðastofnun hefur úthlutað 200 milljónum króna í styrki og hlutafjárframlög í tengslum við mótvægisaðgerðir ríkistjórnarinnar til eflingar atvinnuþróunar og nýsköpunar fyrir þetta ár og hið næsta, hundrað milljónum fyrir hvert ár.

Hins vegar sóttu 253 aðilar um og hljóðaði heildarupphæð styrkumsókna upp á rúmlega 1,5 milljarð króna.

Stofnunin styrki 69 verkefni að þessu sinni. Hæstu styrki, 5 milljónir hvor, fengu Þóroddur ehf. vegna uppbyggingar seiðaeldisstöðvar í Tálknafirði, JE-Vélaverkstæði á Siglufirði, vegna þróunar á nýrri gerð af snekkju og Vélfag ehf. á Ólafsfirði, þróun og smíði roðvélar.

Við mat á umsóknum var einkum tekið tillit til hlutfalls starfa í veiðum og vinnslu á viðkomandi svæði, nýsköpunargildis, gæða og mögulegs árangurs verkefna auk fjölda starfa sem þeim er ætlað að skapa.

„Verulegir erfiðleikar steðja að  sjávarútvegsfyrirtækjum”

Á ársfundi Byggðastofnunar sem haldinn var um helgina kom fram að eignir stofnunarinnar í árslok 2007 námu tæpum 13 milljörðum króna, um 700 milljónum meira en í árslok 2006.

Stofnunin tapaði tæpum 180 milljónum króna í fyrra. Ríkið lagði rekstrinum til 383 milljónir króna á liðnu ári. Byggðastofnun greiddi út árið 2007 lán að fjárhæð 2 milljarðar króna, sem er hálfum milljarði meira en árið á undan.

„Síðustu mánuðir ársins voru erfiðir, en þá urðu stórir viðskiptavinir stofnunarinnar á sviði sjávarútvegs gjaldþrota, og kallaði það á há framlög í afskriftarreikning stofnunarinnar. Erfiðleikar fyrirtækja í sjávarútvegi koma glögglega fram hjá viðskiptavinum stofnunarinnar og ljóst er að verulegir erfiðleikar steðja nú að mörgum fyrirtækjum í sjávarútvegi á landsbyggðinni, ekki síst eftir mikinn samdrátt í þorskveiðiheimildum á yfirstandandi fiskveiðiári. Þær afleiðingar munu halda áfram að koma fram á árinu 2008,” sagði Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri stofnunarinnar á ársfundi stofnunarinnar um helgina.

Hann sagði ekki lengur framhjá því horft að hefðbundinn sjávarútvegur er ekki lengur sama undirstaða atvinnulífsins og áður fyrr og hann geti ekki verið það.

„Á undanförnum árum hafa veiðiheimildir færst á stöðugt færri hendur og fyrirtækjum í fiskvinnslu fækkar. Störfum í frumvinnslugreinum hefur fækkað verulega á undanförnum árum, og er fyrirsjáanlegt að svo verði áfram. Samkvæmt heimildum Hagstofu Íslands hefur störfum við fiskveiðar fækkað á undanförnum árum um sem næst 30% Verð á varanlegum veiðiheimildum hækkar stöðugt og ekki getur orðið um eðlilega nýliðun að ræða við þessar aðstæður, auk þess sem við bætist samdráttur í veiðiheimildum af náttúrulegum aðstæðum.”