Tvö þúsund króna seðillinn verður ekki prentaður áfram og mun hann deyja smám saman út, að sögn Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Már kynnti nýjan 10.000 króna seðil í bankanum í dag. Hann sagði í samtali við VB Sjónvarp í dag einn af lærdómum hrunsins þann að nauðsynlegt sé að hafa nægar seðlabirgðir í landinu.

„Við höfum nóg til að svara villtustu vonum til að byrja með,“ segir Már um birgðirnar af nýju 10.000 króna seðlunum.

Tvö þúsund króna seðillinn var settur í umferð árið 1995 eða fyrir átján árum.

Már sagði vissulega enn hægt að nota seðilinn áfram þótt hann verði ekki prentaður áfram.